Að finna gleði í skáp fullum af ringulreið

Margir kannast eflaust við það með hækkandi sól og vorilminn í loftinu að taka góða vortiltekt á heimilinu.

Ég tók eina slíka nú á dögunum þar sem ég gekk frá vetrarfötunum og fór í gegnum fataskápa fjölskyldunnar. Ég tók frá fatnað sem strákarnir mínir eru hættir að nota eða vaxnir upp úr. Margt að þessum fatnaði var enn mjög heillegur og því fannst mér upplagt að gefa fötunum framhaldslíf, indæl vinkona mín tók við þeim með glöðu geði.

Sama gerði ég við fataskáp okkar hjóna. Ég hef haft þá reglu að taka skápinn minn sérstaklega fyrir svona jafnt og þétt yfir árið. Þegar skápurinn minn er farinn að líta út eins og hvirfilbylur hafi farið þar um þá veit ég að það er kominn tími til að endurraða og flokka hvað ég nota og hvað ég er hætt að nota.

Ég flokka fötin mín yfirleitt í þrjá flokka, 1.það sem ég nota reglulega, 2.það sem ég nota ekki en mun mögulega vilja nota aftur, 3. það sem ég er hætt að nota.

Þau föt sem ég flokka undir það sem ég mögulega nota aftur set ég niður í kassa og hef í fataskápnum. Ég fer svo reglulega í gegnum þennan kassa og flokka úr honum aftur, það kemur fyrir að ein og ein flík fer aftur í fataskápinn en restin sem ég hef ekki hreyft við lengi fær framhaldslíf á nýjum stað t.d með því að gefa áfram, selja eða til Rauða Krossins.

Það sem mér leið vel eftir þessa tiltekt, fannst mikill léttir að vera búin að fara í gegnum skápana því þar leyndist heldur betur fullt af fatnaði og skóm sem aðrir fá nú góðs að njóta.

Ég hef oft velt því fyrir mér þegar ég tek svona skápatiltekt, af hverju að eiga t.d fimm svarta basic  boli þegar það er nóg að eiga einn góðan? Af hverju höfum við oft þá þörf að þurfa að kaupa okkur nýja flík fyrir hvert tilefni sem við förum í. Oftar en ekki eigum við flíkur sem við notum kannski bara í eitt skipti svo fær flíkin að rykfalla inn í skáp.

En svo eru auðvita flíkurnar sem hafa eitthvað persónulegt gildi, flík sem geymir einhverjar góðar minningar sem við getum engan vegin látið frá okkur.

Í gegnum tíðina hef ég verið mjög dugleg að geyma föt sem ég hugsa “ég kem örugglega til með að nota þetta aftur”, eða “þetta kemur aftur í tísku”, eins föt sem ég hef hætt að passa í en geymi í von um að passa í þau aftur einhvern daginn. Það eru ekki mörg ár síðan að ég losaði mig við mikið af þessum fötum sem ég var búin að geyma í 10 ár. En samt hélt ég alltaf í ákveðin föt áfram. Sem dæmi hef ég alltaf haldið upp á uppáhalds gallabuxurnar mínar sem mamma mín gaf mér þegar ég var 17 ára. Þetta voru Calvin Clain buxur og voru geðveikar á sínum tíma og kostuðu sitt. En eftir þrjár meðgöngur og 18 árum seinna þá er það útséð að ég kem ekki til með að fara í þær aftur. Þær fengu loksins nýtt framhaldslíf nú í síðustu viku þegar ég fór með þær í Rauðakrossinn, en þær verða alltaf mjög kærar í mínum huga og vona ég að einhver þarna úti geti nýtt þær áfram.

Eftir sem ég hef elst og þroskast og orðið meðvitaðari um mikilvægi náttúrunnar og það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra að hugsa vel um náttúruna og okkur sjálf þá hef ég lagt það í vana að reyna að kaupa vandaðari og endingargóðan fatnað með siðferði að leiðarljósi. Ég versla einnig töluvert af second hand fatnaði. Vera dugleg að nota það sem ég á og spá meira í það þegar ég versla mér föt hvort þetta sé eitthvað sem mig vantar og hvernig það nýtist við það sem ég á nú þegar í fataskápnum.


Share this